Eftir Kristínu Ómarsdóttur

Eftir Kristínu Ómarsdóttur

Eilífðarmál

Um sýningu Haraldar Jónssonar í Skaftfelli

Eilífðin hefur löngum auglýst sjálfa sig með myndmálinu. Og frá því spekingar byrjuðu að tala hefur þeim verið tíðrætt um löngun manneskjunnar til að skilja eitthvað eftir á jörðinni eftir hennar dag. Minnisvarða. Fjársjóð sem hún felur gjarnan blaðlaust kortalaust ofan í jörðu. Og litríkan ættboga. Nú, þrælar, faróar og verkstjórar mynduðust við að reisa píramída í Egyptalandi. Menningarverðmæti Íslands eru falin, og ekki falin, í grjóti, sem stundum er lánað úr landinu og skilað aftur. Í handritum, sóleyjum og fíflum og feitu bústnu ánamöðkunum sem gert hafa garða Þingholtanna fræga að ógleymdum risakóngulónum.

Eilífðin bankaði upp á vinnustofu Haraldar Jónssonar og raðaði sér upp í líki litríkra plastbala, eða skúringarfatna, og myndaði úr þeim myndarlega súlu sem gnæfir hátt í herberginu og krýnir sig með titlinum Pípa. Ekki þarf að snúa höfðinu til að skynja óravíddir nafngiftarinnar. Þá krumpaði hún sig saman, eilífðin, skrapp saman, hnipraði sig og lagðist hringandi sig einsog syfjaður hundur, í gólfið: Krumpað myrkur. Á meðan fiðrildin leggjast á gluggann í kalklituðum bókstöfum sem munu fá að veðrast undir áhrifum frá samlituðum vindinum og hverfa, einsog eilífðin, en ekki útum dyrnar, einsog gestir yfirleitt, heldur eitthvert sem mannsandinn veit ekki hvert.

Því Haraldur hleypur ekki á eftir henni með gulan eða rauðan eða bleikan eða grænan bláan háf á lofti.

 

Kristín Ómarsdóttir