Eftir Evu Heisler

Haraldur Jónsson
eftir Evu Heizler

Haraldur Jónsson (f. 1961) er mjög næmur á það sem hann kallar “landslag heyrnarinnar” og víxlverkun tungumáls og skynjunar. Í gjörningi í Þýskalandi árið 1989 sem nefndist Hallisch (umbreyting á gælunafni listamannsins í orð sem líkist heiti tungumáls, til dæmis “Deutsch”), gekk hann inn á dimmt svið og talaði íslensku. Líkami Haraldar var ósýnilegur bakvið bláa súlu ljóskastara sem varpaðist ofan á hendur hans. Þær fálmuðu um loftið til þess að reyna að draga fram það sem hann var að segja. Í fyrstu voru handahreyfingarnar hægar og reyndu að setja fram útskýringar en síðan jókst hraðinn og spennan. Þær báru smám saman röddina ofurliði og urðu að lokum gegnsær birtuhjúpur. Í blálokin rofnuðu öll rökræn tengsl milli handanna og raddarinnar og mikið misræmi myndaðist milli máttlausrar raddarinnar og ágengra handanna.

Þó nokkur verk listamannsins hafa fjallað um íslenska tungu. Til dæmis sýna Fontur (Þ) og Fontur (ð) (1996) þessa tvo íslensku stafi sem skírnarfonta gerða úr sama texefninu og gjarnan er notað í hljóðeinangruðum upptökuverum. Áhorfendur geta smeygt sér í huganum inn í báða fontana en trauðla hreyft sig þegar inn er komið. Eins og listamaðurinn orðaði það: “Íslenska orðið þjóð byrjar og endar á stöfum sem ekki eru til í neinu öðru tungumáli (nema færeysku).”[1]

Haraldur hefur áhuga á því sem hann kallar “hljóðmúra eða heyrnartakmörk íslenskumælandi fólks”. Um miðbik tíunda áratugarins varð Haraldur til þess, fyrstur íslenskra listamanna, að skapa verk sem fjallaði um tilraunir innflytjenda til að takast á við þessi heyrnartakmörk. Íslenskt málver (1996) samanstendur af tólf ljósmyndum af útlendingum að læra að bera fram íslensku í básum í málveri. Hljóðverkið Hreimur var gert fyrir Gallerí Hlust og snerist um uppspunna persónu leikna af finnskri konu sem ræðir hversu erfitt það hafi verið að hafa fæðst á Íslandi en hún hafi flutt til Finnlands á unga aldri og síðan aftur til baka. Hún hafi smám saman lært að tala íslensku en einlægt með finnskum hreim. Persónan veltir fyrir sér viðbrögðum íslenskumælandi fólks við hreimnum: “Þegar Íslendingar heyra hreiminn, þá verður maður óraunverulegur; þú ert alltaf innilokuð í hreimnum hérna á Íslandi.” Verkinu lýkur með tilboði á kynferðislegum nótum sem gefur til kynna löngun til þess að losna úr helsi hreimsins: “En það væri gaman að hittast og spjalla nánar saman.”

Haraldur kemur hljóðverkum oft fyrir á tilkomulitlum stöðum. Innsetningin Moment of Truth (2008) útvarpaði frösum sem innflytjendur skynja sem séríslenska. Frá brunarústum í miðborg Reykjavíkur, bannsvæði sem margir ganga framhjá, gaf hljóðverk Haraldar við og við frá sér klisjur sem eru límið í félagslegum samskiptum. Á göngu um stíg við Gróttu mátti heyra undarlegan harmagrát, hljóð sem var mitt á milli væls í vindi, gaggs í tófu eða snökts í barni. Hljóðverkið Útburður (2006) vísar til gamallrar vögguvísu sem á rætur að rekja til leikrits Jóhanns Sigurjónssonar, Fjalla-Eyvindur, frá 1911. Það vísar líka til dæmigerðs íslensks svars við umkvörtunarefnum annarra: “Hvaða útburðarvæl er þetta?” Eins og önnur verk Haraldar leikur þetta verk sér að fáorðu æðruleysinu sem kennt er við íslenska þjóðarsál og kallar fram litróf tilfinninga.

Verk Haraldar spanna allt frá teikningum og skúlptúrum til gjörninga, hljóðinnsetninga og ljósmynda. Þau kanna margbrotin tengslin milli tilfinninga, skynjunar og líkamans. Innsetningin Herbergi (2006) á sér stað í geymslurými og þaðan berst rödd sjö ára drengs sem les upp lista af tilfinningum í stafrófsröð. Þegar hlustað er tekur maður eftir tengslaleysinu á milli tilfinningar sem orðs og tilfinningar sem reynslu. Það eru engin tengsl milli tilfinninganna, sem sumar hverjar eru flóknar og tilheyra heimi fullorðinna, og sakleysislegrar raddarinnar sem mælir orðin fram, en flestum þeirra er barnið greinilega að kynnast í fyrsta sinn. Eins og mörg önnur verk Haraldar kannar Herbergi að hvaða marki tungumálið kemur á undan raunverulegri reynslu og mótar huglæg viðhorf.

Fyrir innsetninguna Glætan árið 2008 voru gluggar gallerísins klæddir álpappír. Byrgðir gluggarnir voru í Keflavík, samastað bandarísku herstöðvarinnar til ársins 2006,  og kallast á við bernskuminningu listamannsins um herstöðvarbyggingar þar sem starfsmenn bandaríska hersins reyndu að verjast miðnætursólinni á Íslandi. Göt á álpappírnum á gluggum gallerísins eru gægjugöt; þau líkjast einnig stjörnumerkjum eða punktum á herkorti. Endurkast af bílljósum utan við galleríið bregður flöktandi birtu á myrkvað rýmið. Innsetningin kallaði fram fortíð bæjarins sem viðkomustaðar milli Bandaríkjanna og Evrópu, en var líka lítið herbergi fullt af krumpuðum pappír. Pappírinn er í stærðinni A1 og er mattur og hálfgegnsær, eins og pappír sem notaður er í teikningum arkitekta. Innan úr hvítri krumpaðri hrúgunni berst rödd ungs barns sem er að telja upp að hundrað: ánægja hennar og stolt yfir að nefna hverja tölu gefur til kynna að hún sé nýbúin að læra að telja. Þetta er talnagleði sem hefur ekki enn verið njörvuð niður við peninga eða hlutföll eða tímann. Upptalning og endurtekning barnsraddarinnar sem telur glaðlega í sífellu eru í algjörri mótsögn við vitnisburð handa listamannsins sem krumpuðu aftur og aftur auðan hvítan flöt, hvítu sem kallar fram bæði yfirborð til að skrifa á og krumpaðan hvítan lit handklæða og sárabinda.

Krumpun sem merki um bæði tíma og yfirborð kemur líka fram í verkinu Krumpað myrkur sem var fyrst sýnt árið 2005. Krumpað myrkur er hrúga af krumpuðum svörtum pappír. Í sumum innsetningum ræður pappírinn ríkjum í rýminu; ekki sést í kringum hraukinn af krumpuðum svörtum pappír. Í öðrum innsetningum eru ekki nema 150 blöð og krumpaður pappírinn minnir á efni sem hefur bráðnað. Áþreifanleg margræðnin er Haraldi mikilvæg: að krumpa er hugarástand  og krumpaður pappírinn er sýnileg verksummerki um tilfinningar. Eins og listamaðurinn segir: “Þegar höndin grípur og krumpar eitthvað, þá myndast um leið afsteypa snertingarinnar við efnið”.

Sýnileiki þess sem byrgt er inni er iðulega til skoðunar hjá Haraldi, einkanlega í syrpunni Blindnur frá 2008 sem samanstendur af lófastórum leirmunum sem listamaðurinn formaði í höndum sér með lokuð augun. Hann mótar og setur ósjálfrátt merki sitt á leirinn án þess að hugsa um útlitið. Útkoman er nokkrir tugir leirmuna sem líta út eins og beinflísar eða úrelt verkfæri með íhvolfum flötum, dældum og framskotum sem gefa breytilegt hugarástand til kynna.

 Eva Heisler

 

 



[1] Samtal við listamanninn, apríl 2007.